Síðsumarsýning á Sögusetri

Í fallegum sal á Sögusetrinu á Hvolsvelli sýni ég þessa dagana alls kyns mynstur. Mynstur teiknuð með bleki og vatnslitamáluð á pappír sem síðan er límdur á trékringlur, mynstur máluð með akrýllit á tunnulok og mynstur sem ég bý til með því að brjóta saman pappír í ýmis form og raða saman svo úr verða lágmyndir. Og svo er einn fugl.

Það var góð tilfinning að aka í austurátt með verkin mín. Gott að leggja af stað að heiman úr Mosfellssveitinni og halda í áttina heim að fjöllunum mínum, Eyjafjöllum. Mörg mynstrin á sýningunni eru unnin út frá skissum sem ég teiknaði í heimsóknum á safnið í Skógum og einhvern vegin er öll mín myndlist undir áhrfum frá fossinum, jöklinum, fjöllunum, himninum, sandinum og sjónum sem voru heimurinn þegar ég var að alast upp í Skógum.

Það var líka afskaplega gott að hengja myndirnar upp á hvíta vel lýsta veggina, raða þeim, og gefa hverri mynd hæfilegt pláss. Ég vinn alla daga á litlu vinnustofunni minni og þar hafa myndirnar lítið rými og þurfa oft að bíða faldar ofan í kössum. Í Skúmaskoti fá myndirnar stundum veggpláss en þar er ekki pláss til að hengja upp 40 myndir með góðu plássi á milli. Þess vegna er svo gott að fá stundum pláss til að sýna.

Sýningin stendur til 15.september og er opin alla daga frá kl. 9-18.